Quantcast
Channel: Björn Leví » Lýðræði
Viewing all articles
Browse latest Browse all 2

Lýðræðisþynning

$
0
0

3884922343_990dd907f0_oMeirihlutinn ræður sagði Bjarni og miðað við lýðræðissamfélag þá er það alveg rétt. Hvað þýðir annars “meirihluti” í íslensku stjórnkerfi? Jú, við erum með fulltrúalýðræði sem þýðir að kjósendur afsala sér atkvæði sínu til lista af fulltrúum með því að merkja x við ákveðinn listabókstaf í kosningum á fjögurra ára fresti. Möguleikar kjósenda á að hafa áhrif á uppröðun fulltrúa á þessum listum í sjálfum kosningunum er mjög lítill.

Á bak við hvern listabókstaf eru ýmis loforð og samþykktar stefnur félaga þeirra flokka sem merkja sig með viðkomandi bókstaf. Eftir að niðurstöður kosninga eru birtar fær einhver flokkur stjórnarmyndunarumboð og í kjölfarið er búinn til stjórnarsáttmáli sem inniheldur einhvers konar útgáfu af þeim loforðum og samþykktum sem birtust fyrir kosningar.

Lýsingin hér að ofan er skilgreiningin á “lýðræðisþynningu”: Hversu langt er kjósandi frá því að hafa áhrif með atkvæði sínu á ákvarðanatöku. Á Íslandi breytist atkvæði kjósanda í fulltrúa sem kjósandi hefur litla aðkomu að því að velja yfir í stjórnarsáttmála sem inniheldur mögulega ekki loforð og stefnur sem leiddu til þess að kjósandi merkti x við ákveðinn flokk.

Það eru fleiri atriði sem stuðla að lýðræðisþynningu á Íslandi, mismikið vægi atkvæða, fulltrúar sem vinna ekki að almannahag, flokkar sem svara kalli annarra en almennings, 5% þröskuldur (“108. gr. Þau stjórnmálasamtök koma ein til álita við úthlutun jöfnunarsæta sem hlotið hafa a.m.k. fimm af hundraði af gildum atkvæðum á landinu öllu.”), … og svo mætti lengi telja.

En eins og Bjarni sagði, þá ræður [lýðræðislega útþynntur] meirihlutinn. En! Málið er ekki svona einfalt. Í alþingiskosningunum 2013 voru greidd 193.792 atkvæði*. Af þeim atkvæðum fengu núverandi stjórnarflokkar 96.627 atkvæði. Það eru 49,861191380449141347424042272127% atkvæða … 49,86% er ekki meirihluti atkvæða. Ég verð því að spyrja, hvernig getur núverandi stjórn látið sér detta það í hug að láta út úr sér orðin “meirihlutinn ræður”?

Vandamálið er nefnilega þetta; lýðræðisþynningin þar sem atkvæði teljast á flokka, mismikið vægi atkvæða, lýðræðisþröskuldar og meirihlutamyndun óháð atkvæðahlutfalli leiðir til þess að flokkar sem fá 49,86% greiddra atkvæða fá 60,3% þingsæta.

Bilað? Ekki satt?

En bíðið! Það er ekki allt búið. Kerfið er klikkaðra en þetta. Út af 5% lýðræðisþröskuldinum þá mættu 27.097 manns og greiddu atkvæði en fengu engan fulltrúa á alþingi. Þetta voru kjósendur sem kusu Dögun, Flokk heimilanna, Lýðræðisvaktina, Hægri græna, Regnbogann, Landsbyggðarflokkinn, Sturlu Jónsson, Húmanistaflokkinn og Alþýðufylkinguna – ásamt því að skila auðu eða ógildu. 27.097 manns væru stærra kjördæmi en NV-kjördæmi, pínulítið minna en NA-kjördæmi. Misskipting atkvæða, sem er nægilega mikið vandamál, er því smámál miðað við hversu margir kjósendur fengu ekki fulltrúa á alþingi þrátt fyrir að hafa tekið þátt í kosningunum.

Meirihlutinn ræður. Það er alveg hárrétt. Málið er hins vegar ekki svo einfalt – það er nefnilega ýmislegt sem gerist á milli þess sem kjósandi greinir frá skoðun sinni þangað til að ákvörðun er tekin. Eina leiðin til þess að laga það er að gera leiðina frá kjósanda að ákvörðun styttri; atkvæði leiðir til ákvörðunnar. Einungis þá er hægt að segja með réttu: “meirihlutinn ræður”.

* Inniheldur auð og ógild atkvæði. Þeir sem greiddu þau atkvæði höfðu fyrir því að mæta á kjörstað og greiða EKKI stjórnarflokkum atkvæði sitt. Tæknilega séð eru þau því í stjórnarandstöðuhóp sem situr alltaf hjá í öllumatkvæðagreiðslum. Atkvæði þeirra skipta máli, þetta voru 4.802 atkvæði.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 2